Matthías Vilhjálmsson skrifaði í morgun undir tveggja og hálfs árs samning við Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Ísfirðingurinn kemur frá Start í sömu deild.
Vistaskipti Matthíasar hafa legið í loftinu undanfarnar vikur og voru þau staðfest á heimasíðu Rosenborgar nú í morgun.
„Einn af styrkleikum mínum er ég að góður að halda boltanum, ég er góður með höfðinu og vinn vel fyrir liðið. Rosenborg skapar mörg tækifæri í leik,” sagði Matthías við heimasíðu Rosenborg.
„Ég mun fá harða samkeppni frá Söderlund sem ég tel að hafi verið besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar á þessari leiktíð,” en Matthías og Söderlund léku saman hjá FH sumarið 2009.
„Þetta er stór áskorun sem ég hlakka til. Svona stórt félag ens og Rosenborg verður að hafa samkeppni í öllum stöðum, en ég ætla að grípa tækfiærið. Vonandi munum við spila marga leiki í bikarnum og Evrópukeppninni einnig,” sagði Matthías að lokum.
Rosenborg er á toppi deildarinnar og stefnir hraðbyri að 23. deildartitlinum. Þeir slógu út KR í Evrópudeildinni á dögunum og mæta Debrecen í næstu umferð þar sem Matthías vonast eftir að verða orðinn löglegur.
