Bardagamaðurinn Gunnar Nelson er efstur á lista tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir tekjuhæstu íþróttamenn og þjálfara landsins. Gunnar er þar skráður með rúmlega 1,7 milljónir króna í mánaðartekjur. Gunnar keppti á mörgum bardagakvöldum UFC í fyrra og vann alla sína bardaga nema einn.
Gunnar er eini núverandi íþróttamaðurinn í efstu fimm sætum listans. Bjarni Guðjónsson, þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu, er í öðru sæti með tæplega 1,4 milljónir króna á mánuði. Þar á eftir fylgja Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, með tæplega 1,2 milljónir á mánuði, og Reynir Leósson, aðstoðarþjálfari karlaliðs Fylkis í knattspyrnu, með rúmlega eina milljón á mánuði. Reynir er jafnframt sölustjóri hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone.
Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari í golfi, er svo í fimmta sæti listans með 959 þúsund krónur á mánuði. Í sjötta sæti er Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem er efst kvenna á listanum. Líney er sögð með 948 þúsund krónur á mánuði.
Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2014 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.
