Sport

Bolt hljóp á sama tíma í úrslitum og sigraði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Usain Bolt kemur í mark í Lundúnum í kvöld.
Usain Bolt kemur í mark í Lundúnum í kvöld. vísir/getty
Usain Bolt olli engum vonbrigðum í úrslitahlaupinum á Afmælisleikunum í Lundúnum í kvöld, en hann kom fyrstur í mark á 9,87 sekúndum.

Hann hljóp á sama tíma í undanúrslitunum fyrr í kvöld, en keppt er á Ólympíuleikvanginum í Lundúnum þar sem hann vann þrenn gullverðlaun fyrir þremur árum síðan.

Michael Rodgers frá Bandaríkjunum varð annar á 9,90 sekúndum og Kemar Bailey-Cole frá Jamaíku varð þriðji á 9,92 sekúndum. Bailey-Cole vann gull ásamt Bolt í 100 metra boðhlaupi á ÓL 2012 og HM 2013.

„Í heildina var þetta gott hlaup. Ég vildi reyna að hlaupa hraðar í úrslitum, en þetta er allt að koma hjá mér. Þetta gekk ágætlega, en ég byrjaði ekki alveg nógu vel,“ sagði Bolt í viðtali við BBC eftir hlaupið.

Einvígi Gatlins og Bolts verður ein af stóru sögunum á HM 2015.vísir/getty
Einvígi í Peking

Þetta er besti tími Bolts á árinu, en hann hefur lítið getað keppt vegna meiðsla undanfarin misseri. Hann virðist þó vera klár í heimsmeistaramótið sem hefst í Peking í lok ágúst.

Barátta hans og Bandaríkjamannsins Justins Gatlins ætti að verða rosaleg, en Gatlin hefur verið í miklu stuði undanfarin misseri og unnið 26 hlaup í röð.

Gatlin á besta tíma ársins sem eru 9,74 sekúndur, en Bolt hljóp á 9,87 í kvöld í rigningu og mótvindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×