„Hugmyndin er að fólk skilji eftir bækur sem það hefur þegar lesið og taki sér bók í staðinn. Ég held að ef við deildum með okkur þá myndi fólk hafa auðveldari aðgang að skemmtilegu lesefni. Og kannski jafnvel prófað að lesa eitthvað sem því dytti aldrei í hug að lesa annars,“ segir Dagbjört sem hefur búið í Súðavík í yfir þrjátíu ár. Hún þurfti að fá leyfi til hjá menningar- og kynningarnefnd Súðavíkurhrepps en segir að það hafi ekki reynst erfitt.
„Það er eiginlega fátt bannað hér í Súðavík,“ segir hún og hlær. „Við eigum að nota okkar sköpunargáfu til að glæða bæinn lífi.“
Kynntist vísindaskáldsögum í strætó
Dagbjört kynntist í fyrsta sinn því að finna gefins notaða bók í strætisvagni í Edinborg fyrir mörgum árum. „Þar var miði sem á stóð: Taktu þessa bók, lestu hana og skildu hana svo eftir fyrir einhvern annan.“ Bókin var vísindaskáldsaga en Dagbjört hafði aldrei áður lesið bók af þeirri tegund.

Bókasafnið er í símaklefa sem stendur ónotaður í Súðavík enda notast nær allir á landinu við farsíma nú til dags. Símaklefinn fær því nýtt notagildi eins og bækurnar gera.
„Ég vona að fólk gangi vel um þetta,“ segir Dagbjört en jafnvægi verður að vera á milli þess hversu mikið af bókum fólk skilur eftir og hversu mikið það tekur. Þannig vonar Dagbjört að fleiri bæti í safnið, til dæmis þætti henni gaman að því að í bókasafninu væru bækur á þýsku, en á sama tíma má safnið ekki fyllast um of.

Hvetur aðra til að koma upp skiptibókasafni
„Það er ekkert dásamlegra en að gleyma sér yfir góðri bók,“ segir Dagbjört en hún vill með uppátækinu hvetja Íslendinga alla til þess að lesa meira. „Ég er kennari og tel að fólk lesi aldrei nóg. Kannski nú til dags sérstaklega.“ Hún hvetur aðra til þess að koma upp skiptibókasöfnum enda segir hún það ekki þurfa að vera mikil fyrirhöfn.
„Skiptibókasafn þarf ekki að vera meira en góður trékassi með loki. Hann getur verið hvar sem er. Ég held að við Íslendingar ættum að sameinast meira um að samnýta bækur.“
Skiptibókasafnið stendur nálægt tjaldstæðinu í Súðavík í Gamla þorpinu sem einnig gengur undir nafninu Ytra þorp. Safnið hefur þegar fengið góðar viðtökur að mati Dagbjartar. „Þegar þetta hafði staðið í sólarhring þá kíkti ég og þá hafði fólk strax tekið bækur og skilið eftir bækur,“ segir hún hæstánægð og segist ekkert gera annað en í sumarfríinu sínu heldur en að lesa.
