Berto þessi er 31 árs fyrrverandi heimsmeistari en hann hefur unnið 31 af 34 bardögum sínum á ferlinum og tapað þremur. Þessi þrjú töp Bertos hafa komið í síðustu sex bardögum hans.
Hans bíður erfitt verkefni gegn Mayweather í Las Vegas 12. september næstkomandi en sá síðarnefndi er ósigraður í 48 bardögum á ferlinum.
Vinni Mayweather Berto jafnar hann met Rocky Marciano sem vann alla 49 bardaga sína á ferlinum sem stóð frá 1947 til 1955.
Svo gæti farið að þetta yrði síðasti bardagi Mayweather á ferlinum en hann hefur áður lýst því yfir að hann ætli að leggja hanskana á hilluna eftir bardaga númer 49.
Mayweather bar sigurorð af Manny Pacquiao í síðasta bardaga sínum eins og frægt er orðið.
