Eygló Ósk Gústafsdóttir keppti í morgun í 50 metra baksundi á Heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi.
Eygló Ósk kom í mark á 28,75 sekúndum og varð í 23. sæti í undanrásum sem þýðir að hún komst ekki í undanúrslitin.
Eygló Ósk á sjálf Íslandsmetið í greininni sem er 28,61 sekúndur. Íslandmetið hennar hefði ekki dugað til að komast í undanúrslitin en sú sextánda og síðasta inn í undanúrslitin í morgun synti á 28,52 sekúndum.
Þetta er í fyrsta sinn sem Eygló Ósk keppir í 50 metra baksundi á HM í 50 metra laug en hún náði B-lágmörkum í þessari grein.
Þetta var jafnframt önnur grein Eyglóar á mótinu en hún varð í 15. sæti í 100 metra baksundi á mánudaginn.
Eygló Ósk keppir einnig í 200 metra baksundi, hennar bestu grein, á föstudaginn.
