Tyrkneska stúlkan Asli Cakir Alptekin þarf að skila gullverðlaununum sem hún vann á ÓL í London árið 2012.
Hún var kærð fyrir ólöglega lyfjanotkun en sýknuð í heimalandi sínu, Tyrklandi. Alþjóða frjálsíþróttasambandið áfrýjaði til íþróttadómstólsins sem dæmdi hana í átta ára bann.
Allur árangur hennar frá árinu 2010 hefur verið þurrkaður út úr metabókum og hún þarf að skila ÓL-gullinu sínu í 1.500 metra hlaupi.
Strax eftir það hlaup sagði breska stúlkan, Lisa Dobriskey, að hún hefði klárlega ekki verið að keppa á jafnréttisgrundvelli.
Þetta mál kemur upp í kjölfarið á ásökunum um stórfellda lyfjamisnotkun í frjálsíþróttaheiminum sem greint var frá í Sunday Times og fleiri miðlum.
Í síðustu viku sagði Alþjóða frjálsíþróttasambandið að það væri að setja 28 íþróttamenn í bann eftir að hafa skoðað lyfjasýni þeirra upp á nýtt.

