Veiði

Rauður Frances sterkur síðsumars

Karl Lúðvíksson skrifar
Rauður Frances hefur lengi vel verið ein vinsælasta veiðiflugan í laxveiðiám landsins og vinsældir hennar eru síst að dvína.

Þegar Sunray Shadow varð mjög vinsæl áttu svo sem margir veiðimenn von á því að hún myndi ýta Frances flugunum neðar á listann yfir fengsælustu flugurnar í veiðiám landsins en það hefur ekki alveg farið svo. Rauð og Svört Frances eru gríðarlega veiðnar flugur og einnig mikið notaðar sem auðvitað hefur áhrif á fengsæld þeirra. En það skal engin velkjast í vafa að við ákveðin skilyrði eru fáar flugur jafn veiðnar.

Sem dæmi um þetta voru veiðimenn við Langá í morgun með um það bil 20 laxa á morgunvaktinni, alla á Rauðan Frances með keiluhaus. Takan virtist vera hálfslöpp á venjulegu smáflugurnar sem hafa verið að gefa best þar í sumar en um leið og sú rauða datt í ánna var allt komið á fullt aftur. Stundum var reynt að skipta um flugur í hylnum bara til að sjá hvort takan væri komin til að vera en laxinn leit ekki við neinu nema hálftommu Rauðri Frances.

Ástæðan gæti verið sú að það hefur rignt vel á Mýrunum og áin hækkað aðeins, en er engu að síður í gullfallegu vatni, og við þau skilyrði virðist það virka vel að koma flugunni aðeins hraðar niður og dýpra niður. Flugan virðist veiða best á hálfgerði reki og geta tökurnar á hana verið mjög kröftugar. Þessi fluga í rauðu og svörtu er skilda í hverju fluguboxi núna síðsumars svo ég tali ekki um í september.






×