Veiði

Góð veiði í Húseyjakvísl

Karl Lúðvíksson skrifar
Þessi lax veiddist í Húseyjakvísl 14. júlí og var sleppt en veiddist aftur 21. júlí
Þessi lax veiddist í Húseyjakvísl 14. júlí og var sleppt en veiddist aftur 21. júlí Mynd: Stjáni Ben
Húseyjakvísl var heldur sein í gang miðað við venjulegt ár en eftir rólega byrjun er hún heldur betur komin í gang.

Stjáni Ben leiðsögumaður hefur verið mikið við ánna í sumar eins og undanfarin ár með sína viðskiptavini og þekkir hana því vel. Hann sendi okkur smá pistil um ánna og veiðina í henni í sumar.

"Það er rokna gangur í Húseyjarkvíslinni þessa dagana eftir brösuga byrjun. Aðeins veiddust 8 laxar fyrstu 2 vikurnar samanborið við 38 bæði 2014 og 2013 en svo fór boltinn að rúlla. Vikan 8. – 14. Júlí gaf 21 lax, vikan 15. – 21, gaf 38 laxa og svo kom sprengingin vikuna 22. – 28. Júlí þar sem veiddust 63 laxar.

Ég hef haldið utan um vikutölurnar á sömu vikunum frá árinu 2000 og aldrei áður hafa veiðst fleiri fiskar á viku en þessa vikuna. Fyrra metið var vikan 15. – 21. Júlí árið 2013 þegar 61 lax veiddist. Vikan þar á eftir gaf 49 laxa og er það besti árangur á þeirri viku síðan ég fór að halda utan um tölurnar. Aðeins er farið að bera á sjóbirting en tveir þokkalegir birtingar veiddust nýverið, 68 og 66 cm fiskar sem báðir höfðu verið í ánni í einhvern tíma svo það er ljóst að þeir eru mættir. Annar þeirra tók Sun Ray en hinn tók Haug #14.

Það hefur lítið rignt í Skagafirði í sumar en Kvíslin er þeim kostum gædd að hún verður nánast aldrei erfið við að eiga vegna vatnsleysis. Það er frekar kuldinn sem hefur verið að stríða mönnum og endalaus stíf norðanátt sem hentar rétthentum veiðimönnum illa á laxasvæðinu í flestum hyljum. Smáflugurnar og hitchið hefur verið að gera gott mót og þess má geta að fjögurra daga holl sem nýverið fékk 27 laxa á 2 stangir fengu 24 á hitch eða smáflugur og 3 á Sun Ray. Svo það er búið að vera líf og fjör".






×