Nordsjælland komst af botninum í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 2-1 útisigur á Hobro í kvöld í uppgjöri tveggja neðstu liða deildarinnar.
Lærisveinar Ólafs Kristjánssonar í Nordsjælland voru fyrir leikinn aðeins búnir að vinna einn leik í fyrstu fimm umferðum og fá fjögur stig af fimmtán mögulegum. Sigurinn var því lífsnauðsynlegur.
Guðmundur Þórarinsson var eini Íslendingurinn í byrjunarliði Ólafs og hann kom Nordsjælland í 1-0 á 20. mínútu.
Thomas Hansen jafnaðí metin fyrir heimamenn á 45. mínútu en Guðmundur og félagar höfðu samt tíma til að komast aftur yfir fyrir hálfleik.
Brasilíumaðurinn Bruninho afgreiddi leikinn með því að skora tvö mörk, það fyrra í uppbótartíma fyrri hálfleiks og það seinna þremur mínútum fyrir leikslok.
Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson og Adam Örn Arnarson voru á bekknum hjá Nordsjælland allan leikinn.
Sigurinn skilar Nordsjælland upp í 8. sæti deildarinnar en liðið hefur þó leikið leik meira en liðin í kringum sig.
