Þetta sagði Eygló Harðardóttir velferðarráðherra í Sprengisandi í morgun þar sem hún ræddi flóttamannavandann og þátttöku Íslendinga við þáttastjórnanda Sigurjón M. Egilsson.
Stuðningurinn frá Íslendingum hvatning
Eygló fagnaði því að sveitarfélög landsins skyldu bregðast svo vel við því að taka við fleiri flóttamönnum. Hún segist hafa haft áhyggjur af því að viðbrögðin yrðu dræm. Þá þakkaði hún Helga Hrafni Gunnlaugssyni, þingmanni Pírata, fyrir að hafa svarað neikvæðum röddum þegar fregnir bárust af því að Ísland hefði samþykkt að taka á móti fimmtíu flóttamönnum. Helgi Hrafn sagði við það tilefni það fullkomna þvælu að hafna flóttamönnum úr stríði á þeim forsendum að á Íslandi eigi íbúar sárt um að binda.

Sjá einnig: Pírati skilur ekki þá sem vilja hafna flóttafólki
Eygló segir þennan stuðning þjóðarinnar hafa verið hvati og stuðningur til að geta gert betur og boðið enn fleiri flóttamönnum hæli hér á landi.
Flóttafólk vill leggja sitt af mörkum til samfélagsins
Velferðarráðherrann segir ríkisstjórnina vera að fara yfir málið hvað varðar fjölda flóttamanna. Hún segist ekki vilja segja hvort fyrrnefnd tala verði tífölduð eða tvöfölduð vegna þess að hún vildi ekki setja neitt hámark á fjölda þeirra sem við tökum við. Það velti allt á því hversu mikla aðstoð hinn almenni borgari í landinu er tilbúinn til að veita hópnum og ríkisvaldinu.
„En er nægur peningur í landinu til að aðstoða allt þetta fólk?“ spurði þáttastjórnandi.
Eygló sagði það hafa sýnt sig að ef samfélagið okkar tekur vel á móti þessu fólki, haldi vel utan um það og veiti þeim þá aðstoð sem það þarf: „Þá skilar það svo sannarlega sínu til samfélagsins. Og það vill gera það.“

„Ég tók ákvörðun um að horfa til hinsegin fólks til dæmis. Því miður eru gífurlegir fordómar í öðrum landi gagnvart hinsegin fólki, transfólki og þetta fólk hefur þurft að þola líkamsárásir í flóttamananbúðum. Það hefur gengið mjög vel að taka á móti þessum einstaklingum og ég vil gjarnan halda því áfram.“
„Við sjáum það bara eins og í viðtalinu í Fréttablaðinu um helgina að þegar við gerum þetta vel, tryggjum fólki vinnu og húsnæði hvað við getum breytt lífi einstaklings með því sem við erum að gera.“ Í viðtalinu var talað við Sava og Nedeljka Ostojic sem komu hingað til lands árið 2003 ásamt 12 ára syni sínum, Sasa. Sasa hafði þá lifað meirihluta ævi sinnar á hrakhólum í flóttamannabúðum.