Sport

Auðveld byrjun hjá Serenu á leið að alslemmunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Serena þakkar rússanum fyrir stuttan leik í nótt.
Serena þakkar rússanum fyrir stuttan leik í nótt. vísir/getty
Serena Williams, besta tenniskona heims, hóf leik á opna bandaríska meistaramótinu í nótt og vann auðveldan sigur á Vitaliu Diatchenko frá Rússlandi.

Serena vann fyrra setttið, 6-2, en sú rússneska hætti svo keppni vegna meiðsla þegar hún var 2-0 undir í öðru setti.

Viðureignin tók aðeins hálftíma þrátt fyrir að gert væri hlé á henni vegna meiðsla Diatchenko. Hún var engin fyrirstaða fyrir Serenu.

Bandaríska tennisdrottningin vonast til að vinna opna bandaríska meistaramótið og fagna þar með alslemmunni, það er að vinna öll fjögur risamótin sama árið.

Hún er nú þegar búin að pakka andstæðingum sínum saman á opna ástralska, opna franska og nú síðast á Wimbledon-mótinu.

Serena hefur á ferlinum unnið 21 risamót og er einu á eftir goðsögninni Steffi Graf. Hún fer langt með að tryggja sér nafnbótina besta tenniskona sögunnar fagni hún sigri á heimavelli að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×