Arsene Wenger hlaut í gærkvöld þann vafasama heiður að verða fyrsti knattspyrnustjórinn sem hefur tapað 50 leikjum í Meistaradeild Evrópu.
Arsenal tapaði nokkuð óvænt gegn króatísku meisturunum í Dinamo Zagreb í gær en lærisveinar Wengers léku manni færri lengi vel eftir að Olivier Giroud fékk rautt spjald í fyrri hálfleik.
Wenger kom Monaco alla leiðina í undanúrslit Meistaradeildarinnar vorið 1994 en félagið tapaði þremur leikjum í keppninni það tímabil.
Í 169 leikjum sem hann hefur stýrt í Meistaradeildinni hefur hann 79 sinnum stýrt liði til sigurs, gert 40 jafntefli og tapað 50 leikjum. Er hann því með 46,7% sigurhlutfall í Meistaradeildinni.
Eru aðeins Carlo Ancelotti (54,6%), Rafael Benítez (54,4%), Jose Mourinho (53,9%) og Sir Alex Ferguson (53,7%) með betra sigurhlutfall en Wenger í Meistaradeildinni.

