Bílar

Ný Opel Astra í Frankfürt

Finnur Thorlacius skrifar
Ný Opel Astra.
Ný Opel Astra.
Opel mun kynna nýja kynslóð Astra á bílasýningunni í Frankfürt í næstu viku. Opel hefur tekist að létta Astra um nær 200 kíló og ætlar að bjóða auk hefðbundins stallbaks bæði langbaksútfærslu og þriggja hurða sportútfærslu sem nefndur er GTC.

Astra er 5 sentimetrum styttri en forverinn en Opel segir að engu að síður sé bíllinn rúmmeiri. Í Astra verða vélar allt frá 1,0 til 1,6 lítrum í sprengirými sem orka frá 95 til 200 hestöflum. Dísilvélin er 1,6 lítra og 136 hestafla og með 320 Nm tog. Allar vélarnar sem í boði verða í Astra eru nýjar, menga lítið og eyða litlu. Í boði verða bæði 5 og 6 gíra beinskiptingar og 5 og 6 gíra sjálfskiptingar.

Opel Astra verður smíðaður bæði í Bretlandi og í Póllandi. Opel hefur smíðað Astra frá árinu 1991 og leysti hann þá af hólmi Opel Kadett. Opel Astra hefur frá upphafi verið lykilbíll fyrirtækisins ásamt Corsa og sala þeirra beggja skiptir lykilmáli í heildarsölunni og því ljóst að Opel hefur lagt sig mikið fram við þessa nýju kynslóð bílsins.

„Fullyrða má að tilkoma nýs Opel Astra sé sannkallað risastökk fyrir bíl í millistærðarflokki með tilliti til afls, tæknibúnaðar og sportlegs útlits,“ segir Dr. Karl-Thomas Neumann, forstjóri Opel í Þýskalandi, þegar hann skýrði frá væntanlegri heimsfrumsýningu í Frankfurt, 15. september nk.

Þar mun Neumann afhjúpa glænýjan Opel Astra, sem mun verða eitt aðaltrompið frá þýska bílarisanum á sýningunni. Meðal skemmtilegra nýjunga sem Opel mun kynna í bílnum eru nuddsæti, Opel On-Star upplýsingakerfi og ný háþróuð Led framljós.  

Í tilkynningu frá Bílabúð Benna segir að metsölubíllinn Opel Astra verði tákn nýrrar kynslóðar í flokki millistærðarbíla frá Opel, sem eigi jafnvel eftir að hrista duglega upp í lúxusbílamarkaðnum. Ný Astra verður fáanleg hjá Bílabúð Benna fljótlega eftir áramót.






×