„Við sáum þetta sem eina ráðið. Við byrjuðum á að skoða þetta skipulega undir lok síðasta árs og lögðum aukin fasteignagjöld á 19 eignir í sveitarfélaginu,“ segir Skúli Þórðarson, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar.

Mikil umfjöllun hefur verið undanfarið um heimagistingar í ferðaþjónustu.
Fjöldi einstaklinga leigir híbýli sín til ferðamanna. Hundruð eigna eru á skrá í höfuðborginni einni hjá síðum eins og Airbnb.
„Sú umræða hefur verið í gangi hringinn í kringum landið að tekjur af ferðaþjónustu skili sér illa til sveitarfélaga. Ríkið hefur yfirumsjón með öllum veltusköttum og sveitarfélög eru óhress með að taka á sig allan kostnað við komu ferðamanna en fá litlar tekjur í staðinn,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Skúli segir líklegt að Hvalfjarðarsveit muni halda áfram eftirliti með heimagistingu sem þessari.
Í sveitarfélaginu sé gríðarlegur fjöldi sumarbústaða einstaklinga sem margir gætu hugsað sér að leigja út til skemmri eða lengri tíma fyrir erlenda ferðamenn.
„Ef við myndum fylgja þessu eftir allt árið 2016 þá myndu tekjur Hvalfjarðarsveitar aukast um á þriðju milljón króna árlega. Ég hvatti kollega mína á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga til að skoða þetta frekar því þarna eru miklir hagsmunir í húfi, ekki bara fyrir okkur heldur er þetta líka réttlætismál,“ segir Skúli.