Nemanja Malovic, svartfellska stórskyttan í liði bikarmeistara ÍBV í Olís-deild karla í handbolta, sleit krossband í leik liðsins gegn Fram í síðustu viku.
Hann verður því ekkert meira með Eyjaliðinu á þessari leiktíð, en þetta kemur fram á mbl.is.
Malovic, sem spilaði með ÍBV í 1. deildinni 2012, kom til Eyjamanna í sumar á ný eftir að spila í Sviss í tvö ár. Hann kom upphaflega til landsins árið 2011 til að spila með Haukum.
Honum var ætlað að fylla í skarð Agnars Smára Jónssonar sem fór í atvinnumennsku eftir síðasta tímabil til Mors-Thy í Danmörku.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, segir í viðtali við mbl.is að ekki standi til að finna annan leikmann í stað Malovic, sem er örvhent skytta.
Eyjamenn eru með tvö stig eftir þrjár umferðir í Olís-deild karla, en liðið mætir nýliðum Gróttu á Seltjarnarnesi klukkan 18.00 í dag.

