Fótbolti

Skotar fyrstir til að fá stig í riðli Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kim Little lék áður með Arsenal.
Kim Little lék áður með Arsenal. Vísir/Getty
Skotar byrjuðu undankeppni EM með 3-0 útisigri á Slóveníu í fyrsta leiknum í riðli Íslands í undankeppni EM 2017 en íslensku stelpurnar spila sinn fyrsta leik á Laugardalsvellinum seinna í kvöld.

Kim Little, leikmaður bandaríska liðsins Seattle Reign, var í aðalhlutverki í leiknum í kvöld en hún skoraði öll þrjú mörk skoska liðsins.

Kim Little, sem hefur nú skorað 44 mörk í 109 landsleikjum fyrir Skotland, skoraði fyrsta markið sitt á 29. mínútu en seinni tvö mörkin skoraði hún síðan á fyrstu fimmtán mínútunum í seinni hálfleik.

Kim Little nýtti skotin sín vel því samkvæmt tölfræði UEFA þá rötuðu öll þrjú skotin hennar í leiknum í slóvenska markinu.

Slóvenska liðið er 44 sætum neðar en Skotland á FIFA-listanum og úrslitin koma því ekki mikið á óvart.

Mateja Zver, fyrrum leikmaður Þór/KA, er fyrirliði slóvenska liðsins og lék allan leikinn í kvöld.

Ísland mætir Hvíta-Rússlandi á Laugardalsvellinum á eftir en Makedónía situr hjá í fyrstu umferðinni því það eru bara fimm lið í riðlinum. Makedónía spilar ekki sinn fyrsta leik fyrr en á móti Íslandi 22. október næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×