Hollenska móðirin Mirjam Foekje van Twuijver var í morgun dæmd í ellefu ára fangelsi fyrir smygl á tæplega tuttugu kílóum af fíkniefnum til Íslands frá Hollandi. Með í för var dóttir konunnar á táningsaldri. Atli Freyr Fjölnisson, Íslendingur sem veitti ætluðum fíkniefnum viðtöku, var dæmdur í fimm ára fangelsi.
„Refsiramminn er tólf ár sem þýðir að þessi mál fara að sprengja refsirammann,“ segir Hulda María í samtali við Vísi.

Dómurinn yfir Mirjam er einn sá þyngsti sem fallið hefur í fíkniefnamáli hér á landi. Árið 2001 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Tryggva Rúnar Guðjónsson í 11 ára fangelsi fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl en Hæstiréttur mildaði þann dóm í 10 ár.
Þá var Kurt Fellner, austurrískur ríkisborgari, dæmdur í héraði í tólf ára fangelsið árið 2002 fyrir e-töflusmygl en Hæstiréttur mildaði þann dóm í níu ár.

Ákæruvaldið fór ekki fram á ákveðinn fjölda ára í fangelsi í sókn sinni í málinu. Hulda María segist hafa ákveðið að leggja það í hendur dómara.
„Yfirleitt nefnir ákæruvaldið árafjölda en vegna þess hve samvinnuþýð ákærða var þá ákvað ég að setja mig ekki í dómarasætið,“ segir Hulda María.

Hulda María segir aðspurð að dómurinn hafi að sumu leyti komið sér á óvart en að öðru ekki.
„Miðað við Papeyjarmálið má segja að dómurinn sé þungur en miðað við önnur ekki,“ segir Hulda María. Refsingin sé há í ljósi þess að Mirjam var samvinnuþýð auk þess sem játning lá fyrir. Mirjam aðstoðaði lögreglu meðal annars við tálbeituaðgerð sem leiddi til handtöku Atla Freys Fjölnissonar sem hlaut fimm ára dóm.
Hins vegar sé óumdeilt að styrkleiki efnanna var afar mikill.
Jóhannes Árnason, verjandi Mirjam, segir dóminn mjög þungan og honum verði að öllum líkindum áfrýjað. Dóminn í heild sinni má lesa hér. Brynjar Níelsson þingmaður er harðorður í kjölfar dómsins og spyr hvað hafi farið úrskeiðis við ákvörðun refsinga í fíkniefnamálum.
Þá hefur Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Atla Freys, tjáð sig um aðgerðir lögreglu sem honum þykir ekki til eftirbreytni vægt til orða tekið.