Evrópusambandið hyggst veita einn milljarð evra, um 140 milljarða íslenskra króna, til tyrkneskra stjórnvalda til að bregðast við flóttamannavandanum.
Tyrkir hyggjast byggja sex nýjar móttökumiðstöðvar fyrir flóttamenn og mun ESB taka þátt í fjármögnun þeirra. Þetta er niðurstaða samningaviðræðna milli aðilanna.
„Það er alveg ljóst að við þurfum á Tyrklandi að halda. Framkvæmdastjórnin mun einnig styðja við bakið á landinu,“ sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á Evrópuþinginu í dag, eftir að hafa hrósað tyrkneskum stjórnvöldum fyrir að hafa tekið á móti 2,2 milljónum sýrlenskra flóttamanna.
„Evrópusambandið og Tyrkland verða að vinna saman, þróa nýja stefnu í málefnum flóttafólks og aðstoða þá sem koma til okkar,“ sagði Juncker.
Tyrkland hyggst efla strandgæslu sína, bæði með auknum mannafla og bættum búnaði, og þá verður samstarfið við grísku strandgæsluna eflt.
Tyrkir munu einnig efla samstarf með evrópsk nágrannaríki þannig að auðveldara verður að senda flóttamenn aftur til Tyrklands.
ESB veitir milljarð evra til Tyrklands vegna flóttamannamála

Tengdar fréttir

Erdogan fundar með fulltrúum ESB um flóttamannamál
Búist er við að ESB muni leggja til aukið fé til stuðnings aðgerða Tyrklandsstjórnar til að bregðast við straumi flóttafólks um landið.