Bræðurnir tveir sem voru hætt komnir þegar þeir festust í affalli Reykdalsstíflu við lækinn í Hafnarfirði í apríl fylgdust spenntir með þegar lónið var fyllt í gær. Hafdís Jónsdóttir, móðir drengjanna, segir þá vel treysta sér til að leika sér við stífluna. Þeir þurfi þó að biðja um leyfi vilji þeir fara þangað.

„Þeir eru báðir mjög hressir. Við tókum ákvörðun um að flytja suður eftir slysið og gistum núna í íbúð skammt frá læknum, þannig að strákarnir leika sér alveg þarna, en bara með mínu samþykki,“ segir Hafdís, en fjölskyldan bjó fyrr á þessu ári á Tálknafirði.
Hún segir atburðinn vissulega hafa tekið á fjölskylduna, en segist afar þakklát fyrir að ekki hafi farið verr. „Þetta var svo góður endir að það er ekki annað hægt en að jafna sig á þessu.“
Drengirnir festust í affallinu er þeir ætluðu að sækja bolta sem fastur var í rennu í stíflunni. Yngri strákurinn fór fyrst út í vatnið en festist, þannig að eldri strákurinn fór á eftir honum, en við það festist hann sjálfur og voru þeir því báðir komnir í sjálfheldu. Aðstæður á svæðinu voru afar erfiðar, svo mjög að tveir karlmenn festust í hylnum og þurftu á björgun að halda.

Drengirnir voru báðir fluttir þungt haldnir á sjúkrahús. Sá eldri þurfti á endurlífgun að halda, en var útskrifaður af sjúkrahúsi einungis nokkrum dögum eftir slysið. Yngri drengnum var haldið sofandi í nokkra daga og útskrifaður af gjörgæsludeild um viku síðar. Við það tók lengra bataferli á Barnaspítala Hringsins.
Sem fyrr segir var lónið fyllt í gær. Verkfræðistofunni Verkís var falið að koma með hugmyndir um hvernig bæta mætti öryggi við stífluna og lá álit hennar fyrir í ágúst síðastliðnum. Þróin fyrir neðan yfirvallið var fyllt af sérvöldu grjóti, kaðlar voru settir á veggina og farvegurinn frá kerinu dýpkaður og hreinsaður. Fylgst verður sérstaklega með lóninu næstu misseri, og málið endurskoðað, verði talin á því þörf.
Slysið í Reykdalsstíflu vakti mikinn óhug meðal þjóðarinnar í apríl. Slysið verður til umfjöllunar í fyrsta þætti Neyðarlínunnar á Stöð 2 þann 11. október.
Viðtal við foreldrana Hafdísi og Bjarna frá því í apríl má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.