Innlent

Neyðarlínan í heild sinni: „Um leið og hann sagði "án djóks“ vissum við að hann væri i lagi“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hafdís Jónsdóttir, móðir drengjanna.
Hafdís Jónsdóttir, móðir drengjanna. Vísir

Óhætt er að segja að þrekvirki hafi verið unnið þegar bræðrunum tveimur var bjargað úr Reykdalsstíflu síðastliðið vor. Raunar þurfti einnig að bjarga vegfaranda og lögreglumanni upp úr stíflunni, sem höfðu reynt að koma drengjunum til bjargar, enda aðstæður í hylnum afar erfiðar.

Í fyrsta þætti Neyðarlínunnar, sem sjá má hér að neðan í heild sinni, er farið yfir atburðarásina, neyðarlínusímtal af vettvangi spilað og rætt við flesta þá sem komu að björguninni dramatísku þann 14. apríl síðastliðinn. Eins og frægt er orðið voru drengirnir tveir afar hætt komnir og þeim yngri vart hugað líf.

Yngri drengurinn, hinn tíu ára Hilmir Gauti Bjarnason, var í hjartastoppi í kringum 37 mínútur en eftir endurlífgunartilraunir gerðist hið ótrúlega að hjarta hans byrjaði að slá á nýjan leik. Þremur dögum síðar vaknaði hann svo og bað um iPad-inn sinn. Hann mundi ekkert eftir því sem hafði gerst.

„Um leið og hann sagði „án djóks“ vissum við að hann væri i lagi,“ segir móðir Hilmis í þætti gærkvöldsins. Í dag er ekkert sem bendir til þess að honum hafi orðið meint af.

Neyðarlínan var sýnd á Stöð 2 í gærkvöldi og þessi fyrsti þáttur í nýrri þáttaröð birtur á Vísi í dag í kynningarskyni. Þættirnir verða sjö talsins og eru á dagskrá á sunnudagskvöldum klukkan 20.10.


Tengdar fréttir

Hilmir Gauti farinn að leika sér á Barnaspítalanum

Þetta er alveg magnað segir móðir drengs, sem hefur náð nær fullum bata, eftir að hafa verið fluttur þungt haldinn á Landspítalann í síðustu viku eftir slys í Læknum í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×