Baltasar Kormákur mun mæta á sérstaka spurt og svarað sýningu á kvikmyndinni Everest. Sýningin fer fram þann 5. nóvember nk í Sambíóunum í Egilshöll. Ásamt Baltasar munu Daði Einarsson sem stýrði tæknibrellum í myndinni og Tómas Guðbjartsson fjallalæknir sitja fyrir svörum.
Eftir sýninguna munu þeir fjalla um hvað gerðist í raun og veru í þessum sögufræga Everest-leiðangri, hvað læra megi af honum og því sem fór úrskeiðis. Auk þess verður farið yfir hvernig tæknibrellurnar voru útfærðar í myndinni. Þá mun Tómas fjalla um hvaða áhrif súrefnisskortur hefur á dómgreind einstaklinga.
Miðaverð er 3.000 kr og mun ágóði af sýningunni renna til Undanfararsveitar Landsbjargar en sýningin er haldin í samstarfi við 66°Norður, Félag íslenskra fjallalækna (FÍFL), Sambíóin og RVK Studios.
