Sjómennirnir voru við veiðar þann 21. október, þegar þeir sáu 18 mánaða gamalt barn klætt í björgunarvesti fljóta í sjónum, samkvæmt DHA fréttaveitunni í Tyrklandi. Svo sáu þeir fleiri flóttamenn fljótandi í sjónum og björguðu 15 manns, mest konum.
Skipstjóri bátsins segir þá hafa grunað að drengurinn væri ofkældur og klæddu þeir hann úr fötunum og vöfðu í teppi. Drengurinn er sagður við góða heilsu og móðir hans bjargaðist einnig. Sjómennirnir heimsóttu þau á sjúkrahúsið samkvæmt CNN.

Flóttamönnum sem reyna að komast frá Tyrklandi til Grikklands hefur fjölgað mikið á síðustu vikum. Flóttamennirnir eru nú ólmir í að komast til Evrópu áður en vetur skellur á. Samkvæmt flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa minnst 644 þúsund flóttamenn ferðast sjóleiðina til Evrópu það sem af er þessu ári.
Í gær drukknuðu kona og tvö börn við strendur eyjunnar Lesbos í Eyjahafi eftir að uppblásanlegur bátur þeirra lenti á grjóti. Minnst sjö er saknað en 53 komust að landi. Börnin tvö voru tveggja og sjö ára, samkvæmt New York Times.