Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að starfsmenn Vínbúðanna verði varir við nokkra eftirvæntingu. „Við finnum fyrir því að það er spurt þegar nær dregur,“ segir hún.
Kúltúrinn fyrir árstíðabundnum bjór hefur aukist nokkuð á undanförnum árum og nú er boðið upp á jólabjór, páskabjór, þorrabjór, sumarbjór og októberbjór. Vínbúðirnar hafa boðið upp á jólabjórinn allt frá árinu 1989. Þetta verður því 27. árið sem hann er í boði.
„En hann er svona að taka kipp núna síðustu árin. Árið 2005 voru seldir 268 þúsund lítrar en í fyrra voru seldir rétt tæpir 670 þúsund lítrar,“ segir Sigrún Ósk. Það er aukning um 150 prósent á tíu árum.
Sigrún Ósk segir að þótt sala á jólabjórnum aukist þýði það samsvarandi aukningu í neyslu á bjór. „Það færist úr öðrum tegundum á meðan. Það er alveg greinilegt. Þetta er ekki hrein viðbót við söluna.“
Undanfarin ár hafa margar jólabjórstegundir selst upp löngu fyrir jól. Sigrún segist ekki vera komin með tölur yfir framleitt magn og getur því ekki svarað því hvort hægt verði að fá vinsælustu tegundirnar síðla í desember.

Sveinn Waage, kennari í Bjórskólanum, segir að áhugi á jólabjór aukist á milli ára.
„Þetta er orðin allt önnur stemning og fer stigvaxandi,“ segir Sveinn. Þarna séu tveir þættir sem skipti máli. Annars vegar hafi innlendum framleiðendum á bjór fjölgað gríðarlega. Hins vegar geri reglur ÁTVR ráð fyrir því að allar árstíðabundnar bjórtegundir séu teknar í sölu. „Þannig að það sem mætir okkur er svo mikið úrval,“ segir Sveinn, sem óttast jafnframt að þetta myndi breytast ef starfsemi ÁTVR yrði hætt.
Sveinn segist vera búinn að smakka nokkrar tegundir af jólabjór sem komi í ár og þær lofi mjög góðu.
„Þetta er alveg geggjað,“ fullyrðir Sveinn. Þar á hann við innlendu framleiðsluna. Hann hefur ekki smakkað erlenda framleiðslu.