Yfirvöld í Frakklandi hafa borið kennsl á tvo árásarmenn til viðbótar, sem tóku þátt í árásunum á föstudaginn. 129 manns létu lífið í árásunum.
Um er að ræða Frakkann Samy Amimour, sem sprengdi sig í loft upp í Bataclan tónleikahúsinu. Hann var 28 ára gamall en var undir eftirliti yfirvalda eftir að hafa verið ákærður vegna hryðjuverkarannsóknar árið 2012.

Hinn maðurinn hét Ahmad Al Mohammad, samkvæmt sýrlensku vegabréfi sem fannst, og var hann fæddur í Idlib fyrir 25 árum. Saksóknarar segja að fingraför hans sýni fram á að hann hafi komið til Evrópu í gegnum Grikkland.
Sjö menn eru nú í haldi lögreglu í Belgíu grunaðir um að tengjast árásinni og stendur nú yfir umfangsmikil leit að manni sem kom að árásunum og slapp í gegnum vegatálma lögreglunnar í Frakklandi.