Tónlist

Konur eru reyndar konum bestar, ekki verstar

Guðrún Ansnes skrifar
Þær Lilja, Unnur og Greta sjá um raddirnar fyrir Swing kompaní. Þær munu fara um allt land og koma við á yfir fimmtán stöðum fyrir jól.
Þær Lilja, Unnur og Greta sjá um raddirnar fyrir Swing kompaní. Þær munu fara um allt land og koma við á yfir fimmtán stöðum fyrir jól. Vísir/Anton Brink
„Fólk gerir voða oft ráð fyrir að við hljótum að vera í samkeppni, báðar að syngja og spilum popp á fiðlu, en svo er nú einmitt alls ekki,“ segir Unnur Birna Björnsdóttir, tónlistarkona með meiru, sem tók höndum saman við fiðluleikarann Gretu Salome sem flestum ætti að vera orðin kunn eftir þátttöku sína í Eurovision árið 2012. Þá tók hún lagið Never Forget með Jónsa og lék eftirminnilega á fiðluna á sviðinu í Azer­baísjan. Nú hyggjast þær ferðast um landið með bandinu Swing kompaníinu.

Eins gott að vinna saman

„Þetta er nefnilega bráðfyndið, hvorug okkar hefur litið þetta sömu augum og margir virðast gera. Ég man til dæmis eftir því að hafa verið með félögum mínum í Fjallabræðrum að troða upp á sömu tónleikum og Greta, og að loknu atriði Gretu segir einn félaga minna við mig: „Á ég að slíta strengina?“ í algjöru gríni auðvitað,“ segir Unnur og skellihlær og heldur áfram: „Einhverju sinni var einmitt skotið svona létt á mig líka, þegar einn félagi minn sagði vissara fyrir mig að halda vel á spilunum ef ég ætlaði að halda í við Gretu.“

Unnur bendir á að þetta sé sérlega skondið í ljósi þess að í raun þrífist ekki svoleiðis hugsunarháttur innan íslensku tónlistarsenunnar. „Það er einhvern veginn engin samkeppni hérna. Bransinn er of lítill fyrir svona samkeppni. Það er alltaf einhver betri en maður sjálfur, svo það er bara allt eins gott að vinna bara saman í svona litlu samfélagi. Bransinn er lítill og þar þekkjumst við öll meira og minna, en ef ekki, þá eru allir skyldir öllum.“

Gaman að detta í girl power

Segir Unnur Birna sérlega gaman að fá að leiða hesta sína saman við þá sem Greta dregur til leiks. „Það eru ekkert margir fiðluleikarar hérna heima sem spila popp og bara svona alls konar tónlist. Flestir eru í Sinfóstemningunni. Það er heldur ekkert leiðinlegt að detta í svona girl power stundum,“ útskýrir hún létt í lundu. „Svo vorum við svo heppnar að fá með okkur Lilju Björk til að vera rödd með okkur og hún er á blússandi siglingu með að læra á úkúlele,“ bendir Unnur á. Hljóðfærið úkúlele á rætur sínar að rekja til Hawaii og er lítill fjögurra strengja gítar.

Auk þeirra þriggja koma svo Óskar Þormar, Leifur Gunnarsson og Gunnar Hilmarsson að bandinu góða.

Athyglisspanið ekki langt. 

Unnur segir Swing kompaníið hafa verið duglegt við að æfa sig fyrir komandi jólatörn sem styttist óðum í að skelli á og oft hafi verið hamagangur á hóli.

„Athyglisspanið okkar flestra nær ekkert rosalega langt svo við erum stundum bara komin út og suður, eða í hláturskast ef ekki er haldið vel á spöðunum. Ef Greta hefur ekki hemil á okkur, þá geta æfingarnar orðið ansi tímafrekar,“ bendir Unnur á, og skýtur að, að samstarfið sé í einu og öllu frábær skemmtun.



Búnar að sitja sveitar

Nafn sveitarinnar má rekja til þess að swing-tónlistar verður vart í tónleikaprógrammi hljómsveitarinnar. Swing-tónlist eða sveiflutónlist er mikil danstónlist og þróaðist út frá New Orleans-djassinum. Líkt og nafnið gefur til kynna er auðvelt að sveifla sér við tónlistina og má telja líklegt að það sé eitt af markmiðum sveitarinnar á komandi tónleikum.

„Við ætlum svo að swinga um allt land í desember og stefnum á að taka að minnsta kosti fimmtán tónleika fyrir jól. Við Greta og Lilja erum búnar að sitja sveittar við að semja jólatexta við swing-lög, auk þess sem við höfum notið góðs liðsinnis í þeim efnum. En við ætlum svo sem að bjóða upp á klassísku jólalögin líka. Þá munum við fá kór úr hverju bæjarfélagi fyrir sig þar sem við höldum tónleika til að vera með okkur, svo eflaust eiga allir eftir að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Unnur í lokin, yfir sig spennt fyrir komandi hlátursköstum með þessu spánnýja bandi.


Tengdar fréttir

Draumur að hitta Slash

Þrettán ára einhverfur strákur frá Akureyri fékk draum sinn uppfylltan þegar hann hitti gítarleikarann Slash eftir tónleika hans í Laugardalshöll á laugardag.

Eins og að búa á 5 stjörnu hóteli

Gréta Salóme Stefánsdóttir, söngkona, tónskáld og fiðluleikari, hefur starfað sem skemmtikraftur um borð í Disney Magic-skemmtiferðaskipinu í eitt ár. Gréta hefur siglt um heimsins höf í tæpt ár en hún kemur heim eftir tvær vikur og þá kemur út nýtt lag með henni.

Patró nafli heimsins

Skjaldborgarhátíðin, hátíð íslenskra heimildarmynda, verður að vanda á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, einn af upphafsmönnum hátíðarinnar, segir hana aldrei hafa verið eins eftirsótta og glæsilega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×