Ragnar Sigurðsson stóð vaktina í vörn rússneska úrvalsdeildarliðsins Krasnodar þegar það gerði sér lítið fyrir og vann Borussia Dortmund, 1-0, í Evrópudeildinni í kvöld.
Pavel Mamayev skoraði eina mark leiksins fyrir heimamenn í Rússlandi á annarri mínútu úr vítaspyrnu og 1-0 urðu lokatölur.
Bæði lið eru örugg um sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar en berjast um efsta sætið í riðlinum.
Með sigrinum komst Krasnodar upp fyrir Dortmund á innbyrðis viðureignum, en liðin skildu jöfn í fyrri leiknum í Dortmund.
Vinni Ragnar og félagar sinn leik í lokaumferðinni vinna þeir C-riðilinn í Evrópudeildinni.
Ragnar hélt hreinu gegn Dortmund í sigurleik
