ÍBV nældi í tvö góð stig í Olís-deild karla í kvöld er liðið sótti ÍR heim í Austurbergið. Æsispennandi leik lauk með eins marks sigri ÍBV, 26-27.
ÍR-ingar byrjuðu leikinn vel og náðu um tíma þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik en ÍBV náði að jafna fyrir hlé, 14-14.
Eyjamenn tóku svo við sér í síðari hálfleik og tóku frumkvæðið í leiknum. Mikil spenna var undir lokin. ÍR hefði getað jafnað leikinn í síðustu sóknunni en það gekk ekki og ÍBV fagnaði sigri, 26-27.
Kári Kristján Kristjánsson og Einar Sverrisson skoruðu sex mörk fyrir ÍBV en Sturla Ásgeirsson og Ingvar Birgisson skoruðu fimm mörk fyrir ÍR.
ÍBV komst upp í 14 stig með sigrinum og er því aðeins stigi á eftir Aftureldingu sem er í fjórða sæti. ÍR er áfram í næstneðsta sæti deildarinnar með 9 stig.
