Rúv hefur á vef sínum birt upptöku af brotinu sem varð til þess að Halldór Logi Árnason, leikmaður Akureyrar, fékk rautt spjald í leik liðsins gegn FH í gær.
Halldór Logi og Bergvin Gíslason stigu út í Einar Rafn Eiðsson, leikmann FH, sem sótti á vörn Akureyringa. Einar Rafn fékk högg í andlitið og lá eftir í gólfinu, eins og sjá má í myndskeiðinu.
„Ég snéri bakinu í Einar og var að passa línumanninn þegar Einar klessir allt í einu inni í bakið á mér. Dómararnir mátu þetta sem svo að ég hefði gefið honum olnbogaskot og þeim til varnar gerist þetta hratt og erfitt fyrir þá að meta þetta á svona stuttum tíma,“ sagði Halldór Logi í viðtali við Vísi eftir leikinn í gær.
Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson dæmdu leikinn en fram kemur í frétt Rúv að dómarar leiksins hafi sent inn agaskýrslu vegna málsins sem þýðir að Halldór Logi verður hugsanlega dæmdur í leikbann vegna brotsins.
Fékk umdeilt rautt spjald eftir 45 sekúndur | Sjáðu brotið

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Akureyri - FH 25-20 | Akureyri úr fallsæti
Akureyri fær tækifæri í kvöld til að fjarlægjast fallsvæði Olísdeildarinnar enn frekar.