Samtöl við sjálfstæðismenn Þorvaldur Gylfason skrifar 17. desember 2015 07:00 Ég hitti gamlan félaga minn á förnum vegi, sjálfstæðismann af gamla skólanum, og hann tók þá upp úr þurru að mæra Ísland og allt sem íslenzkt er eins og hann héldi að ég ætlaði að gera hið gagnstæða að fyrra bragði. En mér bjó ekkert slíkt í hug. Ísland er hrekklaust samfélag, sagði hann. Ekki finnst þeim það sem misstu allt sitt í hruninu, sagði ég, heimili sín eða ævisparnað eða hvort tveggja. Þetta er verra í útlöndum, sagði hann. Já, sagði ég, að því leyti að þar hafa þeir sem tæmdu bankana sloppið við dóma, en hér eru fangelsisárin vegna hrunsins komin yfir 30, bætti ég við. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir. Nú er talan komin upp í 54 ár sem dreifast á 22 einstaklinga og á trúlega eftir að hækka þar eð Hæstiréttur á enn eftir að fjalla um ýmis hrunmál. Þetta gerir um 2,5 ár á mann að meðaltali. Útlendingar taka eftir þessu, t.d. framkvæmdastjóri AGS sem hældi Íslandi fyrir þetta í ræðu um daginn.Embættismaðurinn Í einkasamkvæmi ekki alls fyrir löngu hitti ég annan gamlan kunningja, hátt settan embættismann. Ég var á fundi í Valhöll, sagði hann, og þegar varaformaður flokksins sté í ræðustól risu fundarmenn hljóðlega úr sætum sínum, hvílík stemning. Mér varð hugsað til Rúmeníu þar sem þau Nikolaí Sjáseskú og Elena kona hans fengu þessar móttökur hvar sem þau komu, en ég sagði ekkert. Kunningi minn hélt áfram: Ísland vantar aga. Já, sagði ég, þess vegna m.a. samþykktu kjósendur nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, stjórnarskrá sem kveður á um skýr valdmörk og mótvægi, jafnt vægi atkvæða, auðlindir í þjóðareigu o.fl. og bíður nú staðfestingar Alþingis. Nei, biddu fyrir þér, sagði hann, þátttakan í þjóðaratkvæðagreiðslunni var ekki nógu mikil. Lögin gera enga kröfu um tiltekna þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum, sagði ég. Stjórnlagaráðið var ólöglegt skv. ákvörðun Hæstaréttar, sagði hann þá. Þið skirrizt ekki við að skýla ykkur bak við lögleysur, sagði ég. Þegar Hæstiréttur vísaði frá kæru vegna meintra tæknigalla á framkvæmd sveitarstjórnakosninganna 2012, viðurkenndi rétturinn þar með í reynd að ógilding stjórnlagaþingskosningarinnar 2010 vegna meintra tæknigalla var lögleysa, sagði ég, eins og margir menn hafa sýnt og sannað á prenti. Enda hvarf forsprakkinn í ógildingarmálinu skömmu síðar burt úr Hæstarétti.Listamaðurinn Í garðveizlu í hjarta Reykjavíkur vék sér að mér gamall kunningi, listamaður, vel tengdur, svo vel tengdur að hann þurfti um skeið ekki að gera boð á undan sér þegar hann átti erindi í stjórnarráðið heldur gekk hann bara beint inn á kontór ráðherrans án þess að banka. Þetta var vorið 2012. Sjálfstæðismenn á Alþingi höfðu þá brugðið fæti fyrir tillögu ríkisstjórnarinnar um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskrána samhliða forsetakjöri í júní 2012 til að spara fé og tryggja góða þátttöku. Ég stend með ykkur í stjórnarskrármálinu, sagði kunningi minn, en þú skalt gera þér grein fyrir því, Þorvaldur minn, bætti hann við, að það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla haldin um málið. Mér datt sem snöggvast í hug að hann væri e.t.v. að flytja mér boð eða bergmál úr efstu lögum flokksins. Hafi svo verið mistókst ráðagerðin þar eð þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin 20. október þá um haustið.Forstjórinn Í samkvæmi vorið áður, það var 2011, hafði enn annar gamall kunningi minn, forstjóri, spurt mig hvort við værum viss um að við þekktum þjóðina, við í stjórnlagaráði sem höfðum þá, komin að verkinu hvert úr sinni áttinni, nýlega samþykkt frumvarp að nýrri stjórnarskrá einum rómi með 25 atkvæðum gegn engu og afhent Alþingi. Já, ég held við þekkjum þjóðina, a.m.k. það sem hún vill og óskar sér, svaraði ég, enda er nýja stjórnarskráin í öllum aðalatriðum í samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins 2010. Vilji þjóðarinnar lá fyrir.Útreiðartúr á tígrisdýri Í þessum samtölum var það embættismaðurinn einn sem hampaði lögleysu Hæstaréttar og gerði lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og þá um leið úr lýðræðinu. Sjálfstæðismenn á Alþingi ættu að hugsa sig vandlega um áður en þeir stimpla sig inn í Íslandssöguna sem óvinir lýðræðisins. Þeim var fengið gullvægt tækifæri eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna til að segja við útvegsmenn: 83% kjósenda hafa lýst stuðningi við auðlindir í þjóðareigu og við verðum að fylgja þeim frekar en ykkur. Það er ekki of seint fyrir sjálfstæðismenn að sjá sig um hönd. Sá sem fer í útreiðartúr á tígrisdýri og situr enn á dýrinu getur stokkið af baki. Hann getur a.m.k. reynt það og – hver veit? – kannski sloppið með skrekkinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Ólafur Björn Sverrisson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Ég hitti gamlan félaga minn á förnum vegi, sjálfstæðismann af gamla skólanum, og hann tók þá upp úr þurru að mæra Ísland og allt sem íslenzkt er eins og hann héldi að ég ætlaði að gera hið gagnstæða að fyrra bragði. En mér bjó ekkert slíkt í hug. Ísland er hrekklaust samfélag, sagði hann. Ekki finnst þeim það sem misstu allt sitt í hruninu, sagði ég, heimili sín eða ævisparnað eða hvort tveggja. Þetta er verra í útlöndum, sagði hann. Já, sagði ég, að því leyti að þar hafa þeir sem tæmdu bankana sloppið við dóma, en hér eru fangelsisárin vegna hrunsins komin yfir 30, bætti ég við. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir. Nú er talan komin upp í 54 ár sem dreifast á 22 einstaklinga og á trúlega eftir að hækka þar eð Hæstiréttur á enn eftir að fjalla um ýmis hrunmál. Þetta gerir um 2,5 ár á mann að meðaltali. Útlendingar taka eftir þessu, t.d. framkvæmdastjóri AGS sem hældi Íslandi fyrir þetta í ræðu um daginn.Embættismaðurinn Í einkasamkvæmi ekki alls fyrir löngu hitti ég annan gamlan kunningja, hátt settan embættismann. Ég var á fundi í Valhöll, sagði hann, og þegar varaformaður flokksins sté í ræðustól risu fundarmenn hljóðlega úr sætum sínum, hvílík stemning. Mér varð hugsað til Rúmeníu þar sem þau Nikolaí Sjáseskú og Elena kona hans fengu þessar móttökur hvar sem þau komu, en ég sagði ekkert. Kunningi minn hélt áfram: Ísland vantar aga. Já, sagði ég, þess vegna m.a. samþykktu kjósendur nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, stjórnarskrá sem kveður á um skýr valdmörk og mótvægi, jafnt vægi atkvæða, auðlindir í þjóðareigu o.fl. og bíður nú staðfestingar Alþingis. Nei, biddu fyrir þér, sagði hann, þátttakan í þjóðaratkvæðagreiðslunni var ekki nógu mikil. Lögin gera enga kröfu um tiltekna þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum, sagði ég. Stjórnlagaráðið var ólöglegt skv. ákvörðun Hæstaréttar, sagði hann þá. Þið skirrizt ekki við að skýla ykkur bak við lögleysur, sagði ég. Þegar Hæstiréttur vísaði frá kæru vegna meintra tæknigalla á framkvæmd sveitarstjórnakosninganna 2012, viðurkenndi rétturinn þar með í reynd að ógilding stjórnlagaþingskosningarinnar 2010 vegna meintra tæknigalla var lögleysa, sagði ég, eins og margir menn hafa sýnt og sannað á prenti. Enda hvarf forsprakkinn í ógildingarmálinu skömmu síðar burt úr Hæstarétti.Listamaðurinn Í garðveizlu í hjarta Reykjavíkur vék sér að mér gamall kunningi, listamaður, vel tengdur, svo vel tengdur að hann þurfti um skeið ekki að gera boð á undan sér þegar hann átti erindi í stjórnarráðið heldur gekk hann bara beint inn á kontór ráðherrans án þess að banka. Þetta var vorið 2012. Sjálfstæðismenn á Alþingi höfðu þá brugðið fæti fyrir tillögu ríkisstjórnarinnar um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskrána samhliða forsetakjöri í júní 2012 til að spara fé og tryggja góða þátttöku. Ég stend með ykkur í stjórnarskrármálinu, sagði kunningi minn, en þú skalt gera þér grein fyrir því, Þorvaldur minn, bætti hann við, að það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla haldin um málið. Mér datt sem snöggvast í hug að hann væri e.t.v. að flytja mér boð eða bergmál úr efstu lögum flokksins. Hafi svo verið mistókst ráðagerðin þar eð þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin 20. október þá um haustið.Forstjórinn Í samkvæmi vorið áður, það var 2011, hafði enn annar gamall kunningi minn, forstjóri, spurt mig hvort við værum viss um að við þekktum þjóðina, við í stjórnlagaráði sem höfðum þá, komin að verkinu hvert úr sinni áttinni, nýlega samþykkt frumvarp að nýrri stjórnarskrá einum rómi með 25 atkvæðum gegn engu og afhent Alþingi. Já, ég held við þekkjum þjóðina, a.m.k. það sem hún vill og óskar sér, svaraði ég, enda er nýja stjórnarskráin í öllum aðalatriðum í samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins 2010. Vilji þjóðarinnar lá fyrir.Útreiðartúr á tígrisdýri Í þessum samtölum var það embættismaðurinn einn sem hampaði lögleysu Hæstaréttar og gerði lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og þá um leið úr lýðræðinu. Sjálfstæðismenn á Alþingi ættu að hugsa sig vandlega um áður en þeir stimpla sig inn í Íslandssöguna sem óvinir lýðræðisins. Þeim var fengið gullvægt tækifæri eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna til að segja við útvegsmenn: 83% kjósenda hafa lýst stuðningi við auðlindir í þjóðareigu og við verðum að fylgja þeim frekar en ykkur. Það er ekki of seint fyrir sjálfstæðismenn að sjá sig um hönd. Sá sem fer í útreiðartúr á tígrisdýri og situr enn á dýrinu getur stokkið af baki. Hann getur a.m.k. reynt það og – hver veit? – kannski sloppið með skrekkinn.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun