Gunnar Nelson fékk 75.000 dali eða 9,7 milljónir króna í verðlaunafé fyrir tapið gegn Demian Maia í UFC-bardaga þeirra aðfaranótt sunnudags.
Þetta kemur fram á MMA-vefsíðunni MMAFighting.com en þar er farið yfir verðlaunafé allra bardagakappanna á UFC 194-bardagakvöldinu.
Gunnar tapaði nokkuð sannfærandi á stigum en Brasilíumaðurinn hafði mikla yfirburði allan tímann og sló Gunnar meðal annars 193 sinnum.
Með sigri hefði Gunnar tvöfaldað verðlaunafé sitt og staðið uppi með 150.000 dali eða 19,4 milljónir króna.
Í staðinn tvöfaldaði Maia 78.000 dalina sem hann fékk fyrir að berjast gegn Gunnari og fékk í heildina 20,1 milljón króna í verðlaunafé fyrir að vinna Gunnar.
Þetta eru ekki heildartekjur bardagakappanna þar sem sumir þeirra fá hluta af sjónvarstekjum og svo koma inn í þetta kostnunaraðilar.
