Ný stikla fyrir nýjustu heimildarmynd bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Michael Moore er komin út, en þar spilar Ísland ansi stóra rullu. Moore var sem kunnugt er staddur hér á landi í sumar við tökur á myndinni.
Myndin ber heitið Where to invade next, eða Hvert skal næst gera innrás. Í henni heimsækir Moore lönd á borð við Ísland, Noreg, Ítalíu og Frakkland til að kynna sér það sem betur fer í þeim löndum en í heimalandi hans. Kjarninn greindi frá því um helgina að Moore hefði reynt að heimsækja fangelsið Kvíabryggju á meðan dvöl hans hér á landi stóð en ekki haft erindi sem erfiði.
Sjá einnig: Jón Gnarr og Michael Moore hittust
Moore tók marga þjóðþekkta einstaklinga tali hér á landi og gætir nokkurra þeirra í nýju stiklunni. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, er þeirra fyrirferðarmest en Ólafi Þóri Haukssyni, sérstökum saksóknara, og Hafdísi Jónsdóttur, einnig þekktri sem Dísu í World Class, bregður einnig fyrir í stiklunni.
Þá má sjá brot úr heimsókn Moore í franska grunnskóla, þar sem skólamaturinn þykir talsvert betri en víða í Bandaríkjunum, og Bastoy-fangelsiseyjuna í Noregi, þar sem eitt framsæknasta fangelsi heims er að finna.
Þjóðþekktir Íslendingar í nýrri stiklu Michael Moore
Tengdar fréttir

Michael Moore á landinu
Bandaríski kvikmyndagerðamaðurinn Michael Moore er staddur á Íslandi og kom hann til landsins í dag.

Jón Gnarr og Michael Moore hittust
Jón Gnarr hitti í dag bandaríska kvikmyndagerðamanninn Michael Moore sem er á landinu.