Innlent

Tveir skjálftar yfir 3 í Bárðarbungu

Heimir Már Pétursson skrifar
Frá eldgosinu í Holuhrauni.
Frá eldgosinu í Holuhrauni. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson
Tveir jarðskjálftar stærri en þrír mældust í Bárðarbunguöskju í nótt en hún er vöktuð allan sólarhringinn. Í tilkynningu frá náttúruváreftirliti Veðurstofunnar segir að fyrri skjálftinn hafi mælst um klukkan hálf þrjú í nótt og verið 3,3 að stærð. Hinn síðari hafi mælst um klukkan tíu mínútur í fimm í morgun og einnig verið 3,3, að stærð.

Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruváreftirlitsins segir að síðan um miðjan september hafi orkuútlausn skjálfta heldur aukist í Bárðarbunguöskjunni. Um svipað leyti verði vart við þenslumerki frá öskjunni og sé ekki ólíklegt að bæði merki tengist kvikusöfnun í Bárðarbunguöskjunni.

Kristín segir að miðað við nýleg líkön af Bárðarbungu verði að teljast ólíklegt að mjög stutt sé í annað eldgos en hitt sé líklegra að kvikusöfnunarfasi geti tekið langan tíma. Eldstöðin sé þó mikið vöktuð, daga og nætur á Veðurstofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×