Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akranesbæjar, segir Víking vera samofinn sögu Akraness. „Þetta er fjórði Víkingur sem kemur í höfnina. Sá síðasti kom 1960 en hann var seldur í brotajárn í fyrra. Nýja skipið er hið glæsilegasta og með flottum vistarverum. Það var mjög mikið af fólki mætt á athöfnina enda er þetta gríðarlega mikil lyftistöng fyrir sjávarútveg á Akranesi. Við bindum miklar vonið við skipið og áhöfnina.“
Haraldur Böðvarsson lét smíða skip með nafninu Víkingur MB 2 í Lambhúsasundi á Akranesi árið 1913 og var það og Valur MB 1 fyrstu skipin sem voru smíðuð þar. Nýr Víkingur kom svo tuttugu árum síðar eða 1933 þegar fyrirtækið keypti nýtt skip sem var smíðað í Friðrikssundi í Danmörku og var nefnt Víkingur MB 80. Þriðja skipið með þessu nafni, Víkingur AK 100, kom til heimahafnar í október 1960.

Einar Guðfinnsson, forseti Alþingis, var viðstaddur athöfnina en hann flutti ávarp um mikilvægi fiskveiðistjórnunarkerfisins fyrir sjávarútveg á Íslandi. Karlakórinn Svanir söng frumsamið lag eftir Valgerði Jónsdóttur um systurnar söltu. Steinunn Ósk Guðmundsdóttir gaf skipinu nafn með hefðbundnum hætti og séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur blessaði skipið og áhöfnina.