Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA var maður helgarinnar því þessi 19 ára spretthlaupari setti tvö Íslandsmet á Stórmóti ÍR, í 400 metra hlaupi í gær og í 200 metra hlaupi á laugardag.
Kolbeinn Höður kom í mark í 200 metra hlaupinu á 21,64 sekúndum og bætti með því fjögurra ára met Óla Tómasar Freyssonar.
Kolbeinn Höður kom í mark í 400 metra hlaupinu á 47,59 sekúndum en Kolbeinn hafði áður hlaupið best á 48,03 sekúndum. Hann setti ekki aðeins Íslandsmet heldur náði einnig lágmarki á EM innanhúss.
Alls bættu keppendur sig í 652 greinum á Stórmóti ÍR en auk Íslandsmet Kolbeins voru sett tvö aldursflokkamet. Tristan Freyr Jónsson setti met í 60 metra grindarhlaupi 19 ára með því að koma í mark á 8,34 sekúndum.
Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH setti nýtt met í 400 metra hlaupi 15 ára og yngri með því að koma í mark á 54,80 sekúndum.
Þórdís Eva varð önnur í hlaupinu og var rétt við lágmarkið á EM fullorðinna en Hafdís Sigurðardóttir setti þar nýtt persónulegt met með því að hlaupa á 53,70 sekúndum. Aníta Hinriksdóttir kom önnur í mark en var enn á ný dæmd úr leik.
Helgin hans Kolbeins
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
