Þetta segir Jónas Ýmir Jónasson, 38 ára starfsmaður Suðurbæjarlaugar og knattspyrnuáhugamaður, við Fréttablaðið, en Jónas Ýmir hefur boðið sig fram til formanns KSÍ. Hann fer því upp á móti Geir Þorsteinssyni, sitjandi formanni, sem hefur sinnt starfinu síðan 2007.
Sjá einnig:Geir fær mótframboð frá FH-ingi ársins 2014
„Hann er búinn að vera formaður í átta ár og unnið frábært starf, en nú er kominn tími á breytingar. Það hefur enginn gott af því að vera of lengi í starfi. Mér finnst að kjörtímabilið ætti að vera fjögur ár í senn og menn mættu mest sitja tvö kjörtímabil,“ segir Jónas.
Síðar í vikunni ætlar að Jónas Ýmir að koma á framfæri hugmyndum sínum um framtíðarstefnu KSÍ, en það er þó eitt sem brennur hvað helst á honum.
„Þetta virðist vera svolítið lokuð klíka. Ég vil opna þetta meira og t.a.m. opna bókhaldið og leyfa fólki að sjá í hvað peningarnir fara. Geir hefur gert margt gott, en samt eru hlutir sem þarf að laga og bæta. Framboð mitt opnar allavega á umræðu um þessa hluti og það er gott fyrir alla að breyta hugsunarhætti sínum. Ekkert varir að eilífu,“ segir Jónas Ýmir.

„Ég hugsaði þetta fyrir síðustu formannskosningar en augljóslega gerði ég ekkert í því þá. Ég hef pælt í þessu síðustu tvö ár og lét verða af þessu núna. Það hafa allir gott af smá samkeppni og það á líka við um formann KSÍ,“ segir Jónas Ýmir, skellir svo upp úr og bætir við í gamni: „Ekki meir, Geir.“
Jónas hefur verið knattspyrnuáhugamaður frá blautu barnsbeini og mætt á nær alla leiki liðsins í þrjá áratugi. „Ég var þarna líka í gegnum erfiðu tímana. Við pabbi eru miklir FH-ingar þó ég sé líka í mikilli Haukafjölskyldu. Þó við séum FH-ingar þá eru engin vandamál í fjölskyldunni,“ segir hann léttur í bragði.
Jónas er í sambúð með Hjördísi Pétursdóttur, geislafræðingi á Landspítalanum, en þau hafa verið í sambandi í 19 ár. Þau eiga tvö börn: Stúlku sem er sex ára og dreng sem er þrettán ára.
„Strákurinn hefur ekki mikinn áhuga á fótbolta en sú litla æfir bæði handbolta og fótbolta með FH. Það er mikil íþróttaástríða í henni eins og pabba sínum,“ segir Jónas Ýmir Jónasson.