Kostnaður við A-landsliðin í fótbolta var 244 milljónir króna á síðasta ári sem var 28 milljóna króna lækkun frá árinu áður. Munaði þar um tvo kostnaðarsama aukaleiki gegn Króatíu í umspili um sæti á HM í nóvember 2013.
Síðustu tvö ár hafa þó verið mun dýrari en áður, en kostnaðurinn rauk upp um 56 milljónir frá 2012 til 2013. Fór þar úr 216 milljónum í 272 milljónir. Stærstur hluti aukakostnaðarins tengist A-landsliði karla, meðal annars ráðningu Svíans Lars Lagerbäcks sem landsliðsþjálfara.
„Þegar við stigum skrefið að taka Lars inn þá tókum við þá ákvörðun að A-landsliðið fengi forgang,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, við Fréttablaðið.
„Við fórum í dýra aðgerð sem hefur skilað sér.“ Starfið í kringum landsliðið hefur stóraukist og hafa landsliðsmennirnir margsinnis tjáð sig um meiri og betri umgjörð. Það kostar líka peninga. Til að mynda tók liðið leiguflug frá Lettlandi til Hollands á milli leikja í undankeppni EM á síðasta ári, en því hefur Lagerbäck kallað eftir.
„Þetta er enn mikilvægara í dag þegar búið er að stytta tímann á milli leikja. Nú eru þetta bara þrír dagar og það skilaði sér,“ segir Geir, en eftir sigur á Lettum úti komu strákarnir heim og unnu frækinn sigur á Hollendingum.
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa en það hefur kostað sitt. „Við erum efnahagslegt undur hvað þetta varðar þegar við miðum okkur við stórar og millistórar þjóðir,“ segir Geir og hlær við, en þó A-landsliðið fái mest þá skapar það líka mestu tekjurnar.
„Þetta er liðið sem dregur vagninn,“ segir formaðurinn. „Svona 99 prósent af öllum tekjum koma í gegnum A-landsliðið og styrki frá UEFA. Þetta er það sem heldur uppi starfseminni.“
Geir: 99 prósent af öllum tekjum koma í gegnum A-landsliðið
Tómas Þór Þórðarson skrifar
