Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem í gær birti á vef samtakanna samningana sem Icelandair gerði við flugmenn sína.
„Við stöndum frammi fyrir kröfum um 30 til 50 prósenta launahækkanir á sama tíma og efnahagslegt svigrúm er fyrir einn tíunda af kröfunum,“ sagði Björgólfur á fundinum.
„Það fylgjast allir með og sérstök launahækkun eins hóps leiðir óhjákvæmilega til aukinna krafna annarra.“
Vilhjálmur segir rétt að halda til haga að samningurinn við flugmenn Icelandair sé gerður á undan læknasamningunum.

Vilhjálmur segist hins vegar ekki gagnrýna flugmenn og flugstjóra fyrir að landa góðum samningi.
„Ég er bara að benda á hræsnina, sem ríður ekki við einteyming hjá Samtökum atvinnulífsins,“ segir hann.
Næsti fundur í kjaradeilu Starfsgreinasambandsins er á morgun, en í dag er seinni hluti tveggja daga verkfalls sem lamar ýmsa starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins.
En af því að áhrifin eru úti á landi telur Vilhjálmur ef til vill að síður sé brugðist við í borginni við samningaborðið.
„Menn virðast hafa af því mestar áhyggjur að ekki fáist hamborgarar í Reykjavík meðan stór hluti atvinnulífsins er lamaður úti á landsbyggðinni,“ segir Vilhjálmur og bendir á að víða sé engin fiskvinnsla í gangi, ferðaþjónusta liggi niðri og á Akranesi verði leikskólar lokaðir á morgun vegna þess að þeir hafi þá ekki verið þrifnir tvo daga í röð.
„En menn vakna kannski þegar höfuðborgarsvæðið hikstar.“
