Stórleikirnir eru báðir á sunnudaginn þegar Víkingar taka á móti Val í Fossvoginum klukkan 19.15 og KR-ingar taka á móti FH í Frostaskjóli klukkan 20.00 en sá leikur er í beinni á Stöð 2 Sport.
KR-ingar eru ríkjandi bikarmeistarar og hafa unnið bikarinn þrisvar á síðustu fjórum árum. FH-liðið er aftur á móti komið í átta liða úrslitin í fyrsta sinn í fimm ár eða síðan að liðið varð bikarmeistari síðast haustið 2010.
FH-ingar eru á leiðinni í bikarleik í Vesturbænum í þriðja sinn frá 2010 og þeir hafa tapað hinum tveimur. KR-liðið hefur fyrir löngu sannað sig sem mikið bikarlið enda unnið 11 bikarleiki í röð á KR-velli og KR á nú möguleika á undanúrslitunum áttunda árið í röð.
Síðastir til að slá KR út úr bikarnum á KR-vellinum voru Valsmenn í 16 liða úrslitunum sumarið 2007, en verðandi Íslandsmeistarar það sumar unnu þá 3-0 sigur í vítakeppni. Valur er eina liðið sem hefur unnið bikarleik á móti KR á KR-vellinum undanfarinn áratug en Valsliðið sló KR einnig út á leið sinni að bikarmeistaratitlinum 2005.
Heimir Guðjónsson hefur þjálfað FH-liðið frá 2008 og gert liðið fjórum sinnum að Íslandsmeisturum. Bikarinn hefur hins vegar aðeins komið einu sinni í hús á þessum sjö árum og enn fremur hefur FH-liðið aðeins einu sinni komist í gegnum átta liða úrslitin í þjálfaratíð hans. FH-ingar hljóta vera orðnir hungraðir í bikartitil.
KR og FH hafa mæst einu sinni áður í Pepsi-deildinni í sumar og þá unnu FH-ingar 3-1 sigur á KR-vellinum þrátt fyrir að vera undir á 72. mínútu leiksins.
