Bandaríkin Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin í Bandaríkjunum, tilkynnti í gær um framboð sitt til forseta fyrir Repúblikanaflokkinn.
Walker er fimmtándi repúblikaninn sem tilkynnir um framboð sitt. Úr hóp þeirra fimmtán verður einn valinn frambjóðandi flokksins á landsvísu.
Walker er þekktur fyrir að hafa svipt verkalýðsfélög opinberra starfsmanna í Wisconsin samningsrétti sínum. Varð það til þess að hópur kjósenda knúði fram kosningar þar sem kosið var um hvort víkja ætti honum úr embætti ríkisstjóra. Walker sigraði í þeirri baráttu með yfirburðum.
„Ég býð mig fram til forseta Bandaríkjanna því Bandaríkjamenn verðskulda leiðtoga sem mun berjast fyrir þá og sigra,“ sagði Walker í gær.
„Án þess að fórna hugsjónum okkar höfum við unnið þrennar kosningar á fjórum árum í fylki hlynntu demókrötum. Við gerðum það með því að vera leiðtogar. Nú þurfum við að gera slíkt hið sama fyrir Bandaríkin,“ bætti hann við.
Walker mælist með níu prósenta fylgi á landsvísu og er sá fjórði í röðinni á eftir Donald Trump, Jeb Bush og Rand Paul.
Ef Walker yrði kosinn yrði hann fyrsti forsetinn síðan 1953 sem ekki hefur háskólagráðu. Þá gegndi Harry Truman embættinu.

