Skoðun

Hvað mun friðurinn kosta?

Sema Erla Serdar skrifar
Að minnsta kosti 32 létu lífið og fleiri en 100 særðust í sjálfsmorðsárás sem gerð var á menningarmiðstöð í tyrkneska bænum Suruc, við landamæri Sýrlands, á mánudag. Um 300 ungmenni, þeirra á meðal ungmenni á vegum samtaka ungra sósíalista, voru saman komin í menningarmiðstöðinni þegar árásin átti sér stað.

Árásin hefur því miður fengið litla umfjöllun í fjölmiðlum hér á landi en árásin hefur víða vakið mikla reiði því augljóst er að árásin beindist sérstaklega gegn ungmennunum sem höfðu unnið sér það til saka að vera á leiðinni til bæjarins Kobane í Sýrlandi, með leikföng að vopni. Þau voru á leiðinni til bæjarins til þess að aðstoða við uppbyggingu bæjarins, sem hefur verið helsti vígvöllur hermanna Íslamska ríkisins og kúrdískra uppreisnarmanna undanfarna mánuði og þarfnast nú mikillar uppbyggingar ef möguleiki á að vera á að búa þar til framtíðar.

Auk þess sem árásin beindist sérstaklega að ungu fólki beindist hún einnig gegn friði og uppbyggingu í Mið-Austurlöndum, gegn lýðræði og mannréttindum og gegn frelsi einstaklingsins. Árásin minnir óheyrilega á voðaverkin í Útey þar sem 68 ungmenni létu lífið í skotárás á sumardvalarstað ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins, en í dag minnumst við þess að fjögur ár eru liðin frá fjöldamorðunum í Útey.

Það er sorglegt að horfa aftur upp á ungt fólk vera myrt vegna hugsjóna sinna og vegna þess að þau vilja láta gott af sér leiða. Það er dapurlegt að sjá alþjóðasamfélagið standa ráðalaust frammi fyrir ógn sem drepur börn og gegn hugmyndafræði sem réttlætir slíkar árásir.

Friður verður aldrei áunninn með átökum heldur með frekari jöfnuði, frelsi og réttlæti. Við munum aldrei hætta að berjast fyrir friðsælli heimi og látum hryðjuverkamenn ekki stoppa okkur eða hræða. En ljóst er að friðurinn mun kosta okkur mikið.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×