Keflavík er komið áfram í undanúrslit bikarkeppni kvenna eftir 24 stiga sigur á Skallagrím, 93-69, í eina leik dagsins í bikarnum.
Þetta var fyrsti leikur Keflavíkur eftir að Margrét Sturludóttir var látin taka pokann sinn í gær sem þjálfari Keflavíkur, eins og Vísir greindi frá. Marín Rós Karlsdóttir stýrði því liði Keflavíkur í dag.
Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og staðan var 38-36 í háfleik. Í síðari hálfleik reyndust heimastúlkur mun sterkari og unnu að lokum öruggan sigur, 93-69.
Melizza Zorning var stigahæst hjá Keflavík með 22 stig, en Sandra Lind Þrastardóttir kom næst með átján stig. Kristrún Sigurjónsdóttir og Sólrún Sæmundsdóttir gerðu báðar 20 stig fyrir Skallagrím.
Á morgun eru svo þrír leikir; Valur - Snæfell, Grindavík - Haukar og Stjarnan - Hamar. Undanúrslitin verða svo leikin helgina 23. - 25. janúar.

