Erlent

Árásir á heimili fyrir hælisleitendur í Þýskalandi fimmfaldast

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Þýskalandi segir að mesta aukningin hafi verið í Norðurrín-Vestfalíu í vesturhluta landsins.
Lögregla í Þýskalandi segir að mesta aukningin hafi verið í Norðurrín-Vestfalíu í vesturhluta landsins. Vísir/AFP
Árásir á heimili fyrir hælisleitendur í Þýskalandi fimmfölduðust á síðasta ári, borið saman við árið þar á undan.

Lögregla í Þýskalandi segir árásir á slík heimili á síðasta ári hafa verið 1.005 talsins, borið saman við 199 árið 2014. Hægriöfgamenn eru grunaðir um verknaðina í níutíu prósent tilvika.

Um 1,1 milljón manna sóttu um hæli í Þýskalandi á síðasta ári og voru Sýrlendingar fjölmennasti hópurinn. Sveitarfélög hafa mörg átt í miklum vandræðum með að hýsa fólkið.

Í frétt BBC kemur fram að Þýskaland hyggist fjölga ríkjum lista yfir ríki sem teljast „örugg“, í þeirri von að draga úr flóttamannastraumnum.

Sigmar Gabriel varakanslari segir að Marokkó, Alsír og Túnis verði bætt á listann yfir þau lönd sem teljast örugg og þar með sé óhætt að senda flóttamenn frá þeim aftur til baka.

Á síðasta ári var Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu og Kósóvó bætt á listann til að draga úr fjölda hælisleitenda.

Lögregla segir að mesta aukningin í árásum á heimili fyrir hælisleitendur hafi verið í Norðurrín-Vestfalíu í vesturhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×