Forsaga málsins er sú að Mirjam var stöðvuð af tollvörðum ásamt dóttur sinni í Leifsstöð þann 3. apríl í fyrra. Í tveimur töskum mæðgnanna var að finna tæplega 20 kíló af fíkniefnum. Atli Freyr var svo handtekinn þann 7. apríl fyrir utan Hótel Frón þar sem hann veitti meintum fíkniefnum móttöku.
Um gerviefni var að ræða sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði skipt út en markmiðið var að fylgja Atla Frey eftir og sjá hvert hann myndi koma fíkniefnunum.
Björgvin Jónsson, verjandi Mirjam, fer fram á að hún verði sýknuð en til vara að refsing hennar verði mildur. Bjarni Hauksson, nýskipaður verjandi Atla Freys, fer sömuleiðis fram á sýknu eða ómerkingu dóms. Til vara að dómurinn verði mildaður. Bjarni tók við sem verjandi Atla Freys í síðustu viku en þangað til hafði Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson verið verjandi Atla Freys.
Atli Freyr er viðstaddur málflutninginn sem hófst klukkan níu í Hæstarétti í morgun. Mirjam er hins vegar fjarverandi. Mikill fjöldi fólks er í salnum en virðast flestir vera nemendur í vettvangsskoðun.