Aðspurður um aðkomu sína að The Solutrean verður Jóhannes þögull sem gröfin. „Það eina sem ég get sagt er að ég er með hlutverk í myndinni og verð í Kanada við tökur á myndinni næstu vikur og mánuði. Varðandi hlutverkið og stærðina á því þá má ég ekkert segja, því miður. Maður verður að leyfa framleiðendunum að stjórna þessu. Ég er búinn að skrifa undir samninga sem banna mér að tjá mig nánar um þetta að svo stöddu,“ segir hann um hlutverkið. En Jóhannes er ekki eina íslenska afurðin sem lætur til sín taka í myndinni, því íslenskt landslag kemur fyrir og er það RVX Studios sem sér um herlegheitin.

Jóhannes segist alsæll með þessi forréttindi sem leikarastarfið hefur í för með sér en hann hefur undanfarið einungis starfað við kvikmyndir og sjónvarpsverkefni erlendis. „Ég er mjög spenntur fyrir þessu, það er frábært að geta ferðast um heiminn og unnið með nýju og ólíku fólki. Fólki sem maður myndi annars aldrei hitta á lífsleiðinni,“ segir hann og er að vonum ánægður með nýja hlutverkið.
Ætli þetta stóra verkefni komi til með að veita þér veigameiri hlutverk í Hollywood? „Það hefur gengið ágætlega hjá mér núna í tæp tvö ár. En síðan ég fékk hlutverk í A.D. Kingdom and Empire þáttunum fyrir NBC þá hefur mér tekist að starfa eingöngu við kvikmyndir og sjónvarpsverkefni erlendis. Eftir A.D. var það Game of Thrones, svo The Coldest City og nú þetta. Við sjáum svo bara til hvað þetta endist og hvert þetta fer. En vissulega mjög ánægjulegt og spennandi allt saman.“