Upplýsingar um VISA og VISA Europe
Í gagnaherberginu lágu fyrir upplýsingar um aðild og eignarhlut Borgunar í Visa Europe sem og upplýsingar um valréttarákvæði á milli Visa Inc. og VISA Europe, að því er segir í tilkynningunni.

„Borgun bjó aldrei yfir upplýsingum um hvort, hvenær né á hvaða verði Visa Europe yrði selt, fyrr en salan var gerð opinber þann 2. nóvember 2015,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins. Þar segir einnig að vænt hlutdeild Borgunar í söluandvirði á VISA Europe hafi ekki orðið ljós fyrr en 21. desember.
„Fyrir þann tíma hafði Borgun engar forsendur til þess að meta eignarhlut sinn í Visa Europe á annan hátt en gert var,“ segir fyrirtækið.
Þá ætlar Borgun að veita Landsbankanum allar þær upplýsingar tengdar söluferlinu sem nauðsynlegar eru til að svara fyrirspurn Bankasýslunnar og annarra opinberra aðila um söluna.
Engin skilyrði í samningnum
Landsbankinn hefur meðal annars haldið því fram að bankinn hafi haft takmarkaðar upplýsingar um Borgun þegar eignarhluturinn var seldur. Hefur hann vísað til samkomulag sem gert var við Samkeppniseftirlitið um takmarkaða aðkomu bankans að fyrirtækinu.
Á sérstökum upplýsingavef sem bankinn opnaði vegna málsins kom fram að bankinn hefði til að mynda ekki haft upplýsingar um að Borgun gæti átt von á greiðslum vegna valréttar Visa Inc. á VISA Europe. Bankinn setti því ekki skilyrði við söluna að ef kaupum á Visa Europe yrði myndu greiðslur sem Borgun fengi renna til Landsbankans í samræmi við hlut bankans.
Það gerði hann hins vegar þegar bankinn seldi 38 prósenta hlut sinn í Valitor til Arion banka þremur vikum síðar.