„Það kemur okkur á óvart með hvaða hætti þetta er boðað, að menn ætli sér að velja einhver tiltekin verk sem þeir ætli ekki að sinna,“ segir Ólafur Teitur. Hann segist ekki viss um að hér hafi verið hliðstæðar aðgerðir áður og að yfir standi af hálfu álversins athugun á því hvort aðgerðirnar standist.

Varðandi yfirlýsingu forstjóra Rio Tinto á heimsvísu um launahækkanafrystingu í ár segir Ólafur Teitur ISAL enn vinna að því með Rio Tinto hvað sé hægt að bjóða. „En það er ljóst að verkalýðsfélögin misstu af mjög góðu tækifæri á þrettándanum þegar þau höfnuðu mjög miklum launahækkunum.“ Þá hafi enginn ágreiningur verið um launaliðinn, en félögin staðið föst á móti kröfu ISALs um heimildir til verktöku, sem önnur fyrirtæki njóti. „En við gerðum þeim ljóst þá að þetta væri okkar ýtrasta boð og yrði ekki jafnað. Og það stendur.“
Allir verði með
„Verkfallið hefur kannski ekki mikil áhrif strax til að byrja með, því það er bara útflutningurinn sem stoppar,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, sem sæti á í samninganefnd starfsmanna í viðræðunum við ISAL og Samtök atvinnulífsins (SA). Um leið segir hann ljóst að stéttarfélög starfsmanna, iðnaðarsamfélagið, og stéttarfélög innan Alþýðusambandsins muni ekki líða að stök fyrirtæki geti sagt sig frá öguðu vinnumarkaðsmódeli sem hér sé verið að koma á. „Annaðhvort eru allir inni í þessu eða ekki.“ SA þurfi að gera Rio Tinto Alcan grein fyrir þeirri stöðu sem hér sé uppi. „Ef SA fer ekki að fá umboð frá Rio Tinto þá þurfa þeir bara að henda ISAL út úr samtökunum.“