Skoðun

ISAL er langt yfir "íslenskum launum“

Ólafur Teitur Guðnason skrifar
Samninganefnd verkalýðsfélaganna í Straumsvík hefur brugðist við fyrri grein minni hér í blaðinu með yfirlýsingu til fjölmiðla. Jákvætt er að ekki einu einasta atriði í grein minni er mótmælt. Þótt ánægjulegt sé að fá slíka staðfestingu á því sem fram kom í greininni er þó ýmislegt við yfirlýsinguna að athuga, þetta helst:

Félögin segja: „Kjaradeila starfsmanna álversins við Rio Tinto snýst um eitt einfalt grundvallaratriði: Að borguð séu íslensk laun fyrir störf í Straumsvík.“

Þetta væru mikil tíðindi, væri þetta rétt. Staðreyndin er hins vegar sú að verkalýðsfélögin vilja einmitt ekki að greidd séu íslensk laun í Straumsvík heldur ISAL-laun, sem eru um fjórðungi yfir íslenskum launum. (Samanburður á dagvinnulaunum verkamanna þegar samningaviðræðurnar hófust.)

Það er rangt hjá verkalýðsfélögunum að ISAL njóti einhverra vildarkjara á Íslandi umfram aðra. Fyrirtækið tilheyrir íslensku skattkerfi að öllu leyti og nýtur þar engra sérkjara. Að mati Ketils Sigurjónssonar orkubloggara greiðir fyrirtækið einnig langhæsta orkuverð allra álvera hér á landi. Fullyrðingar verkalýðsfélaganna um þessi atriði eru því einfaldlega rangar, rétt eins og sú fullyrðing þeirra að aldrei hafi komið til verkfalla í Straumsvík.

Kjaradeilan í Straumsvík snýst ekki um „íslensk laun“ heldur þá staðreynd að ISAL býr við nærri 50 ára gamlar hömlur á útvistun verkefna sem eiga sér enga hliðstæðu á Íslandi. Verkalýðsfélögin þvertaka fyrir að leyfa ISAL að sitja við sama borð og allir aðrir hvað þetta varðar. Fyrir þann málstað afþökkuðu þau tilboð fyrirtækisins um ríflega fjórðungshækkun ofan á laun sem fyrir voru fjórðungi hærri en þau íslensku laun sem þau segja svo í hinu orðinu að sé krafa þeirra.

Væri það raunverulega krafa verkalýðsfélaganna að fá greidd „íslensk laun“ væri ekkert því til fyrirstöðu að skrifa tafarlaust undir samning, því ISAL uppfyllir þá kröfu nú þegar og gott betur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×