Pepsi-deildarlið Víkings vann 1. deildar lið HK, 1-0, í fyrsta leik beggja liða í riðli þrjú í Lengjubikar karla í fótbolta í kvöld.
Eina mark leiksins skoraði Stefán Þór Pálsson á tíundu mínútu eftir glæsilega fyrirgjöf frá Ívari Erni Jónssyni.
Gary Martin, sem gekk í raðir Víkings frá HK í gær, var ekki í leikmannahópi Fossvogsliðsins, en hann klæðist rauðu og svörtu treyjunni að öllum líkindum í fyrsta sinn á sunnudaginn þegar liðið mætir Haukum.
Eftir eina umferð í riðli þrjú eru Skagamenn á toppnum með þrjú stig og fimm mörk í plús eftir 5-0 sigur á Grindavík, en Víkingar eru í öðru sæti. KR og Haukar eru bæði með eitt stig eftir jafntefli sín á milli en HK og Grindavík eru stigalaus.
Reynir Leósson, fyrrverandi Íslandsmeistari með ÍA og sérfræðingur Pepsi-markanna, er þjálfari HK en hann tók við liðinu af Þorvaldi Örlygssyni síðasta haust.

