Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, handarbrotnaði í leik Basel og Saint-Étienne í Evrópudeildinni í gærkvöldi þar sem svissneska liðið tryggði sér farseðilinn í 16 liða úrslitin.
Basel dróst á móti ríkjandi Evrópudeildarmeisturum Sevilla, en Birkir verður líklega ekki með í hvorugum leiknum vegna meiðslanna. Basel greindi frá því á Twitter-síðu sinni í dag að Birkir verður frá í þrjár vikur.
Birkir kom að dramatísku sigurmarki Basel á móti franska liðinu Saint-Étienne í gærkvöldi, en Basel vonast til að komast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem verður spilaður á heimavelli þess, St. Jakobs Park.
Íslenska landsliðið mætir Danmörku og Grikklandi í vináttulandsleikjum í lok mánaðarins og ætti Birkir að vera klár í slaginn þá.
